Monday, November 10, 2008

Sigur Rós

Aðeins meira um Sigur Rós. Við vorum fjögur sem fórum saman á tónleikana. Ég bauð kanadískri vinkonu minni sem er með mér í náminu hérna. Það fyrsta sem hún spurði mig um þegar ég kynnti mig sem Íslending var hvort ég hlustaði á Sigur Rós. Hún hafði aldrei séð þá á tónleikum og var vægast sagt spennt fyrir þeim. Sóla og Eoin komu líka með. Tónleikarnir voru haldnir í Carling Academy sem er gamalt bíóhús hérna sunnan megin við ána og opnaði upprunalega 1921. Það var gert upp í art deco stíl og er núna 2.500 manna tónleikastaður og minnir svolítið á stórt NASA.

Í hinum sanna fjölskylduanda Sigur Rósar voru það For a minor reflection sem hituðu upp. Gítarleikari þeirra, Kjartan Hólm er bróðir Georgs í Sigur Rós. For a minor reflection spila instrumental rokk/experimental músík sem, líkt og tónlist Sigur Rósar einkennist af snilldar uppbyggingum og stóru sándi. Þeir mættu á svið um á slaginu átta og opnuðu á hinu kraftalega Kastljósi og þeir vöktu áhorfendur svo sannarlega. Þeir spiluðu alls fjögur lög sem tók um fjörtíu mínútur enda eru lögin þeirra risastór. Þeir stóðu sig frábærlega og hljómurinn var mjög góður og áhorfendur kunnu greinilega að meta þá. Kynningarnar þeirra voru stuttar og skemmtilegar – þeir minntust á að þeim þætti þetta svolítið stórt enda vanir að spila fyrir 15-20 manns í Reykjavík. 

Þá tók við ótrúlega löng 20 mín bið eftir Sigur Rós. Eftirvæntingin í salnum var mikil en sem betur fer eru strákarnir stundvísir því rétt um níu stigu þeir á svið. Það fyrsta sem heyrðist var tundurduflahljóðið og salurinn rifnaði úr fögnuði. Svefn-g-englar var opnunarlagið eins og oftast á þessum túr og vonir manns um stórkostlegt kvöld rættust strax í fyrsta lagi. Þrátt fyrir að vera ólík Sigur Rós frá því sem maður er vanur því engin var strengja- eða blásturssveitin þá var hljóðið frábært og maður veltir því fyrir sér hvernig allt þetta hljóð kemur frá fjórum feimnum strákum. Þetta reyndist svo sannarlega Ágætis byrjun því þeir renndu sér beint í Ný batterí.

Ég held að það hafi verið eftir ein fjögur eða fimm lög að Jónsi skreið útúr skelinni og ávarpaði áhorfendur og það að sjálfsögðu á íslensku sem á eftir fylgdi stutt kveðja á ensku. Þrátt fyrir að það væru aðeins nokkrar hræður í salnum sem skildu orð af því sem hann sagði var fögnuðurinn ósvikinn. Áhorfendur voru svo virkjaðir í söng í lokin á Með blóðnasir og stemmingin varð bara betri.

Þetta voru æðislegir tónleikar ég held að allir sem á staðnum voru séu sammála um að hápunkturinn hafi verið Gobbledigook. Strákarnir í For a minor reflection stigu á svið og lömdu trommur og salurinn dansaði og klappaði ákaft með. Í öllum hamaganginum sprakk confetti sprengja og áhorfendum var drekkt í litríkum pappírssneplum. Þau orð sem lýsa laginu og flutningnum kannski best eru einfaldlega gleði og gaman. Nú, nokkrum dögum síðar, syngjum við sem fórum saman á tónleikana enn “lalalalalalalalalalalala vindur í hárinu” þegar við hittumst.

Uppklappslögin voru tvö. Fyrst var það All alright, fyrsta lagið sem Sigur Rós syngur á ensku. Jónsi stendur án gítarsins og syngur línur sem áhorfendur skilja og maður hafði á tilfinningunni útfrá látbragðinu að hann væri berskjaldaður, opinn og gæti hvergi falið sig. Þögnin í salnum var yfirþyrmandi og Jónsi gaf sig allan í lagið og útkoman var hreint æðisleg, ekkert nema gæsahúð. Lokalagið var svo Popplagið, 12 mínútur af epískri uppbyggingu sem springur út í algjört brjálæði í lokin þar sem Orri fer á kostum á trommusettinu.

Þeir eru klappaðir aftur á svið og þeir hneigja sig gegndrepa af svita. Held að þessir tónleikar hafi gert meira fyrir mína geðheilsu en nokkrar pillur gætu nokkurn tíma. Takk…

Settlistinn í heild:

  1. Svefn-g-englar
  2. Ný batterí
  3. Fljótavík
  4. Við spilum endalaust
  5. Hoppípolla
  6. Með blóðnasir
  7. Inní mér syngur vitleysingur
  8. Sæglópur
  9. E-bow
  10. Festival
  11. Hafsól
  12. Gobbledigook
  1. All alright
  2. Popplagið

2 comments:

Anonymous said...

Smá öfund úr Danaveldi. Hefði nú ekki verið leiðinlegt að ná þessum tónleikum. Af lýsingunni að dæma voru þetta greinilega magnaðir tónleikar!

Btw. kallinn flottur í radíóinu í gær :)

kv. Óli

Valþór said...

það ættu allir að fá að sjá sigur rós einu sinni á ári ;)