Sunday, November 30, 2008

Pulsa

Brósi búinn að vera í viku og fór í dag. Fórum frítt á tónleika á föstudaginn og sáum fratellis og travis. Ágætis tónleikar og furðufín stemming miðað við bið á milli banda (vá). Edinborg á laugardaginn í fínni jólastemmingu. Athyglisvert þegar við fórum á tiger tiger hérna í götunni hjá mér í gær. Þetta er svona bar/klúbbur. Rúmlega tólf er hitakassinn rifinn fram og byrjað að selja pulsur! Við erum að tala um það að þær rokseldust og staðurinn lyktaði eins og olís nesti. Hversu feitt er þetta lið ef það getur ekki sleppt því að borða pulsu í þrjá tíma? Kólesterólið í blóðinu má náttúrulega alls ekki detta niður fyrir hjartaáfallsmörkin.
Annars áhugavert að Paste magazine var að birta lista yfir bestu plötur ársins. Á topp tíu eru þrjú bönd sem ég hef séð síðasta mánuðinn og svo er mugison nr. 25.

Sunday, November 23, 2008

Fyrirsögn

Fyrsta heimsóknin að baki. Gunnar Þór kom til mín á fimmtudagskvöld og fór í dag. Fyrsta kvöldið fór í pizzu og bjór. Föstudagurinn var heldur hressilegri. Við hittumst eftir skóla hjá mér og fórum á smá barhopp. Skelltum okkur á Skírið og Bjórhöllina. Svo kom meira fólk í heimsókn og við töltum á dansiklúbb hvar drykkurinn kostaði skitið pund. Við ákváðum að drykkur kvöldsins skildi vera g&t. Við náðum að kaupa yfir eitthvað yfir annan tug saman og urðum glaðr mjög. Pizza á heimleiðinni gjörði mig enn meira glaðr. 
Þynnkulaus laugardagur var vel þeginn, hjá mér amk en Gunsó var eitthvað slappur á leiðinni til Edinborgar í lestinni. Rólegur dagur hjá mér og endaði í dvd og bjór. Ég ákvað að halla mér á koddann en sérfræðingurinn ákvað að halla sér heldur að viskíflöskunni fínu sem hann fékk að gjöf í Eddanum. Mér skilst að bragðið sé best neðst í flöskunni.
Í dag fórum við í smá sightseeing/birdwatching í Necropolis. Sá treecreeper sem er bara of sniðugt nafn. Sá labbar upp (aldrei niður) tréstofna alla daga. Sumir eyða lífinu í rugl og vita aldrei hvert þeir eru að fara en það gott að einhverjir hafi stefnu. Svo var það dolli í dómkirkjunni, lunch á the lee og te á tinderbox. Menningarlegt.
Þarf reyndar ekki að bíða lengi eftir næstu heimsókn. Brósi er í loftinu á meðan ég er að skrifa þetta. Aú.

Friday, November 21, 2008

life goes on...

Góðir dagar í borginni. Nóg að gera á öllum vígstöðvum. Verklegar æfingar kláruðust í dag svo nú tekur alvaran við. Við Steini ásamt fleirum renndum okkur á Mugison á miðvikudag á Nice´n´Sleazy og okkar maður var yndislegur. Verst að fáir voru á staðnum en við létum það ekki á okkur fá né heldur hið herfilega upphitunarband someyoungpedro sem voru vægast sagt öööööömurlegir. Annars er Gunnar mættur í slotið og hann fær snapshot af næturlífi Glasgow í kvöld...

Sunday, November 16, 2008

Beygja, sundur, saman, KREPPA

Horfum á björtu hliðarnar. Haldi fram sem horfir þarf ég ekki flugmiða. Bara brúnt umslag... 

Wednesday, November 12, 2008

Ekki baggalútur heldur...

DV

Okkervil River @ Oran Mor

Á sunnudag var síðasti þáttur í þríleiknum, Okkervil River í The Venue í Oran Mor. Frekar sérstakur tónleikastaður. Kjallari og því frekar lágt til lofts svo hljómburður var ekki uppá það besta. Á að taka einhverjar 500 hræður en mér skilst að það hafi ekki verið uppselt þó stemmingin hafi verið fjári góð. Broken Records frá Edinborg hituðu upp. Sjö manna band - held að þeir séu nýkomnir á samning en eiga að vera Arcade Fire Skotlands bla bla bla... Spiluðu gommu af lögum en heilluðu mig ekkert svakalega þó samferðamenn mínir hafi verið svaka hrifinir. Það var eitthvað við söngvarann sem ég var ekki að fíla. Hafi voða lítið carisma greyið og það fór verulega í taugarnar á mér að hann skildi tromma með kjaftinum þegar hann var ekki að syngja... veit ekki af hverju. Ég bjóst a.m.k. við meiru frá sjö manna bandi. Þegar ég var að rölta á barinn í upphituninni hitti ég Magga Gísla. Heimurinn er lítill.


Okkervil River stigu svo loks á svið. Þau koma frá Austin í Texas og hafa verið að síðan 1998, ótrúlegt en satt. Slógu loks almennilega í gegn í fyrra með The Stage Names og núna í haust kom The Stand Ins út sem er nokkurs konar framhald af hinni.
 
Þau opnuðu á Girl In Port og maður sá strax hvað söngvarann í Broken Records vantaði. Will Sheff hefur allt sem góður frontmaður þarf að hafa. Hann er skrýtinn í útliti, langur, mjór, með gleraugu og tileygður. Hann hefur frábæra rödd og ótrúlega lifandi framkomu. Þó hann hafi verið eitthvað lyfjaður þetta kvöld þá skemmdi það ekki fyrir... skil bara ekki hvernig hann hékk á fótunum allan tímann og slapp við að hlaupa eitthvað eða einhvern niður. 

Textarnir hans eru með þeim betri sem ég heyri, nánast engar endurtekningar og segja skemmtilegar sögur með miklu rími. Gleraugunum var kastað burt eftir fyrsta lag og smán saman kastaði hann af sér fötunum líka... fyrst flaueljakkinn, svo bindið og loks skyrtan. Þau spiluðu nýtt og gamalt, sumt eldra hafði ég ekki heyrt áður en það eina sem ég saknaði var Plus Ones. Will Sheff talaði um að hann hefði fundið spilagleðina á ný, hann hafi verið orðinn virkilega þreyttur á að túra en þetta kvöld a.m.k. virtist hann skemmta sér verulega vel. Nýja smáskífan, Lost Coastlines, kom vel út þar sem bassaleikarinn syngur viðlagið. 

Eftir uppklappið fengum við að vita að þau ætluðu að spila þrjú aukalög en staðurinn vildi bara leyfa eitt því það átti að breyta salnum í eitthvað sunnudagsdiskó kjaftæði og það var komin röð fyrir utan, frekar fúlt. En, frábærir tónleikar og Will Sheff virkilega eftirminnilegur. 

Hér er það sem ég hef af settinu:
  • Girl In Port
  • Singer Songwriter
  • Pop Lie
  • A Hand To Take Hold Of The Scene
  • Unless It´s Kicks
  • John Allyn Smith Sails
  • Lost Coastlines
  • Our Life Is Not A Movie Or Maybe
  • Blue Tulip
  • On Tour With The Zykos
  • Black
  • For Real
  • The Latest Thoughts
  • A Stone

Tuesday, November 11, 2008

Fleet Foxes í ABC1

Á laugardaginn hlupum við Steini Hannesar á móti rokinu og rigningunni uppá Sauchiehall Street til að sjá Fleet Foxes spila. Tónleikarnir voru í ABC1 sem tekur u.þ.b. 1.250 manns en það var uppselt fyrir nokkuð löngu síðan. Salurinn er frábær, stuttur, breiður og hátt til lofts og státar af heimsins stærstu diskókúlu sem snýst. Kúlan er heilir tveir metrar í þvermál og er eins og trommarinn Joshua Tillman sagði “a huge fucking disco ball”. Hann hitaði upp með gítarinn og spilaði í góða stund einn og með öðrum úr Fleet Foxes. Var bara nokkuð góður, spilar svona rólega tilfinninga kassagítars músík. Hefur gefið út eina plötu sem heitir Minor Works. 

Eftir upphitun stigu þeir bara beint á svið og skelltu sér í Sun Giant af LP plötunni. Raddanirnar þeirra eru frábærar en þeir eru yfirleitt fjórir sem radda, allir nema gítarleikarinn Skye Skjelset. Útkoman er nokkurs konar wall of sound og hljómar ótrúlega vel. Þeim hefur verið líkt við Beach Boys, Crosby Stills and Nash og fleiri en mér finnst þeir nú bara nokkuð unique. Annað sem ég tók eftir var að það er nánast enginn hefðbundinn trommutaktur, miklu nær að tala um slagverk en trommur. Síðasta lag fyrir uppklapp var Mykonos sem er líka af LP plötunni. Held það þetta sé uppáhaldslagið mitt með þeim í dag. Flutningurinn var líka ólýsanlega góður.

Söngvarinn Robin Pecknold tók svo gamalt amerískt þjóðlag, Katie Cruel. Steig einn framfyrir hljóðnemann og kippti gítarnum úr sambandi og söng (video á facebook) fyrir framan algjörlega þögulan sal. Allt í allt voru tónleikarnir æðislegir, hljóðið gott og bandið skemmtilegt. Þeir spjölluðu nokkuð og voru fyndnir og látlausir. Samt nokkuð ljóst að það er ekki notað mikið sjampó á túrnum.

Fyrir plötuna gefur Mojo 100%, Pitchfork 90%, Q 80%, Rolling Stone 80% og NME 70%. Meðalskor á Metacritic er 87%.

Hér er annars flunkunýtt viðtal við Robin Pecknold í Rolling Stone.

Lög sem ég man eftir að þeir spiluðu:

  • Sun Giant
  • Sun It Rises
  • Drops In The River
  • English House
  • Mykonos
  • White Winter Hymnal
  • Ragged Wood
  • Your Protector
  • He Doesn´t Know Why
  • Katie Cruel
  • Tiger Mountain Peasant Song
  • Nýtt Lag
  • Blue Ridge Mountains
  • Oliver James
  • Quiet Houses

Monday, November 10, 2008

Sigur Rós

Aðeins meira um Sigur Rós. Við vorum fjögur sem fórum saman á tónleikana. Ég bauð kanadískri vinkonu minni sem er með mér í náminu hérna. Það fyrsta sem hún spurði mig um þegar ég kynnti mig sem Íslending var hvort ég hlustaði á Sigur Rós. Hún hafði aldrei séð þá á tónleikum og var vægast sagt spennt fyrir þeim. Sóla og Eoin komu líka með. Tónleikarnir voru haldnir í Carling Academy sem er gamalt bíóhús hérna sunnan megin við ána og opnaði upprunalega 1921. Það var gert upp í art deco stíl og er núna 2.500 manna tónleikastaður og minnir svolítið á stórt NASA.

Í hinum sanna fjölskylduanda Sigur Rósar voru það For a minor reflection sem hituðu upp. Gítarleikari þeirra, Kjartan Hólm er bróðir Georgs í Sigur Rós. For a minor reflection spila instrumental rokk/experimental músík sem, líkt og tónlist Sigur Rósar einkennist af snilldar uppbyggingum og stóru sándi. Þeir mættu á svið um á slaginu átta og opnuðu á hinu kraftalega Kastljósi og þeir vöktu áhorfendur svo sannarlega. Þeir spiluðu alls fjögur lög sem tók um fjörtíu mínútur enda eru lögin þeirra risastór. Þeir stóðu sig frábærlega og hljómurinn var mjög góður og áhorfendur kunnu greinilega að meta þá. Kynningarnar þeirra voru stuttar og skemmtilegar – þeir minntust á að þeim þætti þetta svolítið stórt enda vanir að spila fyrir 15-20 manns í Reykjavík. 

Þá tók við ótrúlega löng 20 mín bið eftir Sigur Rós. Eftirvæntingin í salnum var mikil en sem betur fer eru strákarnir stundvísir því rétt um níu stigu þeir á svið. Það fyrsta sem heyrðist var tundurduflahljóðið og salurinn rifnaði úr fögnuði. Svefn-g-englar var opnunarlagið eins og oftast á þessum túr og vonir manns um stórkostlegt kvöld rættust strax í fyrsta lagi. Þrátt fyrir að vera ólík Sigur Rós frá því sem maður er vanur því engin var strengja- eða blásturssveitin þá var hljóðið frábært og maður veltir því fyrir sér hvernig allt þetta hljóð kemur frá fjórum feimnum strákum. Þetta reyndist svo sannarlega Ágætis byrjun því þeir renndu sér beint í Ný batterí.

Ég held að það hafi verið eftir ein fjögur eða fimm lög að Jónsi skreið útúr skelinni og ávarpaði áhorfendur og það að sjálfsögðu á íslensku sem á eftir fylgdi stutt kveðja á ensku. Þrátt fyrir að það væru aðeins nokkrar hræður í salnum sem skildu orð af því sem hann sagði var fögnuðurinn ósvikinn. Áhorfendur voru svo virkjaðir í söng í lokin á Með blóðnasir og stemmingin varð bara betri.

Þetta voru æðislegir tónleikar ég held að allir sem á staðnum voru séu sammála um að hápunkturinn hafi verið Gobbledigook. Strákarnir í For a minor reflection stigu á svið og lömdu trommur og salurinn dansaði og klappaði ákaft með. Í öllum hamaganginum sprakk confetti sprengja og áhorfendum var drekkt í litríkum pappírssneplum. Þau orð sem lýsa laginu og flutningnum kannski best eru einfaldlega gleði og gaman. Nú, nokkrum dögum síðar, syngjum við sem fórum saman á tónleikana enn “lalalalalalalalalalalala vindur í hárinu” þegar við hittumst.

Uppklappslögin voru tvö. Fyrst var það All alright, fyrsta lagið sem Sigur Rós syngur á ensku. Jónsi stendur án gítarsins og syngur línur sem áhorfendur skilja og maður hafði á tilfinningunni útfrá látbragðinu að hann væri berskjaldaður, opinn og gæti hvergi falið sig. Þögnin í salnum var yfirþyrmandi og Jónsi gaf sig allan í lagið og útkoman var hreint æðisleg, ekkert nema gæsahúð. Lokalagið var svo Popplagið, 12 mínútur af epískri uppbyggingu sem springur út í algjört brjálæði í lokin þar sem Orri fer á kostum á trommusettinu.

Þeir eru klappaðir aftur á svið og þeir hneigja sig gegndrepa af svita. Held að þessir tónleikar hafi gert meira fyrir mína geðheilsu en nokkrar pillur gætu nokkurn tíma. Takk…

Settlistinn í heild:

  1. Svefn-g-englar
  2. Ný batterí
  3. Fljótavík
  4. Við spilum endalaust
  5. Hoppípolla
  6. Með blóðnasir
  7. Inní mér syngur vitleysingur
  8. Sæglópur
  9. E-bow
  10. Festival
  11. Hafsól
  12. Gobbledigook
  1. All alright
  2. Popplagið

Friday, November 7, 2008

VINDUR Í HÁRINU


Fór við fjórða mann að sjá Sigur Rós í gær. Algjör djöfulsins draumur. For a minor reflection hituðu upp og voru frábærir. Spiluðu fjögur lög og það tók hátt í 40 mín. Instrumental og mjög þétt. Gítarleikarinn þar er bróðir Georgs bassaleikara Sigur Rósar. Svo komu laaaangar 20 mín í að bíða eftir Sigur Rós. Eftirvæntingin var rosaleg. Svo byrjaði kafbátahljóðið í Svefn-g-englum og allt varð vitlaust. Spiluðu endalaust og voru örugglega með suð í eyrum. Inní mér söng vitleysingur samfellt og gerir enn. Hápunkturinn klárlega Gobbledigook með for a minor reflection á trommum og svo drekktu þeir áhorfendum í confetti sprengju... Yndislegt.

Sunday, November 2, 2008

Halloween

Skellti mér á Quantum of Solace á föstudaginn. Fín afþreying en ekkert meira en það... Craig flottur og Olga smoking hot. Fyrsti hálftíminn er frekar þreytandi, varla talað orð. Get svo svarið það að dialogið í myndinni fyllir ekki A4 blað - eins og einhver orðaði það... entertained to death... Öx í tá atriðið var samt snilld.

Svo var Halloween á föstudagskvöld. Ekkert nema gaman þó ég hafi nánast drukknað í make-up-i. Mynd takk. 

Stefnan var semsagt David Bowie - Aladdin Sane - 1973. Tókst bara helvíti vel held ég. Aú.

Thursday, October 30, 2008

like a monkey with a miniature cymbal

Á morgun átti ég að vera í brjálæðislega leiðinlegri verklegri æfingu eftir hádegið. Fólk hefur fengið að skipta dögum með alls konar fölskum ástæðum og svo var komið að ekki var hægt að skipta lengur því það var orðið of mikið vesen. Ég prófaði að vera hreinskilinn og sagði að mig langaði ógeðslega að vera í fríi á morgun. Fékk að skipta á no time flat... Hreinskilni börnin góð, borgar sig. Ég á frídag á morgun. Mjá. Og af því tilefni dönsum við og förum á James Bond. Aaaú.


Wednesday, October 29, 2008

Halloween

Í kvöld var dress rehersal fyrir halloween á föstudag. Man ó man... Ég er búinn að grafa djúpa holu. En maður lifir bara einu sinni. Let´s dance...

Saturday, October 25, 2008

Snillingar


Samstarfsfélagar mínir fyrrverandi höfðu áhyggjur af stráknum sínum í útlandinu og ákváðu að senda honum lítinn pakka af spítalanum. Allt frá nurlum uppí heimagerða sultu. Held að ein mynd segi meira en þúsund orð. Djöfull hló ég mikið! Takk takk takk...

Thursday, October 23, 2008

Rigning

Rignir og rignir í Glasgow. Það kemur kannski engum á óvart. Kominn með debit og kreditkort frá HBOS og netið heim. Lífið er ljúft. Hversu mikið mun það einfalda líf mitt að vera með netið heima... Unaður. Í þessari viku er ég búinn að lita sæði, prófa blóðbletti og rannsaka mismunandi pennagerðir. Á morgun eru það blóðslettur (Dexter here I come) og meira sæði. Og partý. Svo er í burðarliðnum að Mugison komi til Glasgow eða Edinborgar... hversu brilliant væri það? Á þegar miða á Okkervil River og Fleet Foxes. Því miður lítur ekki vel út með miða á Sigur Rós. Hjálpið mér fólk. 

Thursday, October 16, 2008

Allt í sóma í Oklahoma

Eftir að ég tók upp dr.gunna ráðin sem sóla benti mér á er ég búinn að vera í samfelldu snilldarskapi síðan á föstudag. Ekkert vandamál sem ég rekst á hreyfir við mér. Mikið að gera í skólanum og sósíallífinu... kannski aðeins of mikið sósíallíf á köflum. Einu áhyggjurnar eru að það gæti farið að vanta blóð í áfengið... 

Monday, October 13, 2008

Credit crunch

Átti loksins mínútur aflögu í dag til að skunda í banka og stofna bankareikning. Eða reyna það amk. Ætlaði mér að sigla hérna í gegn án þess að stofna bankareikning en það strandaði á internetinu af öllum hlutum. Renndi mér í HSBC því Steini félagi minn hafði sagt mér að það hefði gengið auðveldlega í gegn hjá honum. Not so much with me. Í fyrsta lagi þarf að bóka tíma til að stofna reikning. Í öðru lagi er ekki laus tími fyrr en á þriðjudag í næstu viku! Eruð þið að kidda mig? Ég gæti stofnað tíu reikninga heima á tíu mínútum. Hann sagði að þetta væri útaf "ástandinu". Ég spurði hann hvort ég fengi hraðari þjónustu annars staðar. Þá glotti hann og sagði að það væri örugglega ekki mikið að gera í RBS og HBOS Halifax... Ouch.

Thursday, October 9, 2008

CSI: Glasgow

Nenni ekki að tala meira um peninga. Búinn að vera í mjög stífum verklegum æfingum í vikunni. Einum of mikið á köflum. Í gær var ég að bera saman tool marks og herre gúd hvað það er erfitt. They sure make it look easy on TV... Þó að ég væri með för sem ég vissi að væru gerð með sama verkfæri gat ég stundum ekki fengið þau til að passa. Helvítis CSI kjaftæði. En auðvitað væri þetta ekkert gaman ef þetta væri auðvelt. Líka búinn að vera í alls konar þráða æfingum... samanburður og ljóseiginleikar þráða. Massa nördó. Annars er ég búinn að komast að því að Taggart er að hluta tekinn upp í skólanum hjá mér. Byggingin mín er Maryhill Police Station. "There´s been a murder!"

Tuesday, October 7, 2008

Proper fucked

Þegar ég reyndi að nota kreditkortið mitt í dag kom upp gluggi á skjánum hjá afgreiðsludömunni "call your bank"... uuu frábært?

Sunday, October 5, 2008

k-list celebs

Jeminn. Sérstakur gestur á stúdenta"pöbbnum" (sem er actually sjö staðir í sömu byggingu) á þriðjudaginn er Toadfish úr Neighbours. Hversu mikið Office er það? 

Alive and well

Ég get með gleði í hjarta sagt að mér líður mun betur en gengisvísitöluni. Búið að vera fínt í skólanum þó nú sé þetta að byrja fyrir alvöru. Fór á þannig áhugaverðan fyrirlestur á föstudaginn að mér leið eins og ég væri útúrspíttaður eftir tímann. Djöfull fíla ég þegar fólk kann að tala. Fórum eftir skóla á pöbbinn og svo út um kvöldið. Fínir krakkar þó ég sé í fyrsta sinn einn af þeim elstu. En þau héldu að ég væri 23 svo það er í lagi :) Þau geta líka drukkið sem er gott. Tölvan er batteríslaus svo ég er farinn út með skoskan morgunverð í maganum.

Wednesday, October 1, 2008

La vida loca

Fínt að vera byrjaður í skólanum. Gengisvísitala ekki svo fín. Billjón verklegar æfingar fyrstu önnina. Bera skemmtilega titla eins og Semen Confirmatory Tests, Bloodsplash og Fingerprint Enhancement and Recovery. Hafi maður ekki verið nörri fyrir...

Búinn að spjalla við slatta af liði. Kvikindi alls staðar að... USA, kanada, kýpur, indland, hong kong, botswana, suður-ameríka, þýskaland, england... Ekki búinn þó að hitta neinn skandinava sem er svo sem bara fínt. Erum 37 í bekknum að ég held. Hef mest spjallað við kana og kanadamenn enda þjóðir sem eru ansi opnar. Er ekki að sjá fyrir mér mikið hangs með asíubúunum því þeir eru því miður ansi lokaðir, enn sem komið er alla vega. En þetta er fjölbreyttur hópur en reyndar eru bara 9 strákar... women are taking over the world. 

Staffið er mjög næs og allt er brjálæðislega skipulagt. Ágætis tilbreyting frá íslensku "reddast" aðferðinni. Þessi vika verður annars frekar róleg. 

Monday, September 29, 2008

Reporting live from Drizzle City

Var að fá tölvupóst frá Glitni með yfirskriftinni Þarf ég að hafa áhyggjur? Opinn fjármálafundur og ráðgjöf. Held að þeim veiti ekki af ráðgjöfinni sjálfum bara... andskotans.

Skólinn byrjar á morgun. Fínt að byrja enda er ég búinn að fá nóg af því að vera túristi. Farinn að heyra í Íslendingum á hverju horni hérna sem barma sér yfir íslensku krónunni milli þess sem þeir hlaupa með innkaupapoka uppá hótel. Ísland, bezt í heimi.

Byrjað að rigna aftur. Jíha. Lopapeysan kemur sér vel.

Friday, September 26, 2008

Monday, September 22, 2008

Mjánudagur

Skráði mig í skólann í dag, aðeins rykugur eftir gærkvöldið. Stóð í biðröð í um tvo tíma. Hreint helvíti en gott að vera búinn með þetta. Nú getur restin af vikunni farið í reddingar áður en ég byrja svo á fullu í næstu viku. Myndin í stúdentaskírteininu er alveg eins og myndirnar sem birtast af öllum gaurum sem hafa klikkast og skotið allt í rot í skólanum sínum. Frekar shaky. Get svarið að sumir af krökkunum sem voru að skrá sig voru ekki eldri en brauðið síðan í gær.

Saturday, September 20, 2008

I´m in baby

Flutti inn í íbúðina í gær eftir pínku vesen. Þegar ég var kominn inn og horfði á allt draslið tók ég upp símann og hringdi í Sólu. Tuttugu mínútum síðar var ég kominn uppí lest á leið til Edinborgar. Sóla bauð mér í mat, eitthvað ég hef aðeins heyrt um og lesið á prenti og hafði beðið eftir. Sóla skilaði sínu og vel það! Snillingur, takk fyrir mig. Fórum líka á fína tónleika á The Lot og sáum Windlestray

Nú bíða innkaup og átján þúsund lítil vandamál. Ætli fyrsta mál á dagskrá sé ekki að kaupa klósettpappír :) Heimili fúnkerar varla lengi án hans. 

Wednesday, September 17, 2008

Taggart á tilboði. Hvar annars staðar?


Áðan sá ég virðulegan araba með þykka Hitlers mottu. Hann hefur verið að raka sig og hugsað... hmmm hvað get ég gert til að vera öðruvísi. Hey það er enginn með svona bursta á efri vörinni... I´ll be unique. Hugsið ykkur sjokkið þegar hann flettir einhvern tíma á History Channel og sér der fuhrer í full swing með slefi og öllu. Laßt uns niemals der Pflicht vergessen, welche wir auf uns genommen haben! Kannski hatar hann bara gyðinga. 

Annars er vinstri umferðin hérna alls ráðandi. Meira að segja rúllustigarnar eru öfugir... Maður fer upp vinstra megin! Nema í Topshop að mig minnir... enda mætti ég skota sem reyndi að labba á móti mér þegar ég kom niður. 

Svo eru menn ekkert sérstaklega mikið að þvo sér um hendurnar eftir að hafa skilað bjórnum. Yfirleitt bara aðeins að laga hárið... luuvly...

Tuesday, September 16, 2008

Íbúðamál að komast á hreint. Sat á skrifstofunni á leigumiðluninni áðan og leit í kringum mig og fattaði að ég sat í settinu á The Office. Flyt sennilega á föstudag. Fínasta fólk sem vinnur þarna. Þarf að vísu að segja ha? eftir aðra hverja setningu hjá einni skoskri en önnur er áströlsk svo hún getur túlkað.

Gisti fyrstu dagana á hosteli sem var... svo sem allt í lagi. Að vísu sást í gormana í gegnum lakið og fyrir mann með enga einangrun er það indælt. Svo var WD40 lykt í stigaganginum og járnskápur inná herberginu en hey... Flutti svo á hótel sem er stórfínt og sæmilega ódýrt. 

Á laugardag fór ég svo að skoða þessa íbúð sem ég er að fara að flytja í. Hitti Frank og skildi ekki orð af því sem hann sagði. Eða þannig. Hann er retired strætóbílstjóri. Gekk ekki beinlínis vel að komast inn í íbúðina. Komumst klakklaust upp á þriðju hæð og þar mætti okkur talnalás til að komast inn á ganginn sem Frank hafði ekki aðgang að. Komust inn þegar íbúi hleypti okkur inn á ganginn. Þá komumst við ekki inn í íbúðina sem var með þremur lásum. Þá hringdi Frank í Graham í áttunda sinn og hann kom og loks komumst við inn. Fer þá ekki þjófavörn í gang sem enginn var með kóda fyrir. Brjálaður hávaði og ég hlaupandi um íbúðina eins og þjófur að líta í kringum mig. Er þarna í ærandi hávaða í nokkrar mínútur og hendi 100 pundum í Frank til að taka íbúðina frá og fer svo út og skil þá eftir í hávaðanum. Hvernig þessi sena endaði veit ég ekki. Vona bara að fall sé fararheill í þessari íbúð.

Eftir viku í Glasgow má alhæfa. Strákar eru annað hvort stífgelaðir með greiðuför eða að missa toppinn, nema hvoru tveggja sé. Ekki gott lúkk. Allir reykja. Ilmvatn er notað í staðinn fyrir sápu. Svo er ótrúlega mikið af litlum gaurum hérna. Fíla mig einstöku sinnum bara hávaxinn. That´s a first.

Hér rignir endalaust. 

Monday, September 15, 2008

Taka 2

Spurning um að reyna þetta aftur. Byrja smátt. Eitt hef ég lært á fyrstu dögunum í Glasgow. Frankie Boyle er fyndinn. Jútjúbið hann.